Hvað er nikkel?


Hæ Birna - hvað er eiginlega nikkel? 

Nikkel er náttúrulegur málmur og er eitt af fimm algengustu frumefnum jarðar. Nikkel er því að finna í jarðveginum en í mismiklu magni eftir því hvar þið eruð stödd. 

Það er auðvelt að vinna með nikkel og í dag er nikkel ómissandi hluti af iðnaðarframleiðslu. Til að mynda finnst nikkel í flestu ryðfríu stáli. 

En hvað er þá nikkelofnæmi og hvernig tengist það ís???? 

Algengast er að nikkelofnæmi sé snertiofnæmi sem þýðir að fólk með þess konar ofnæmi geta ekki verið með skartgripi sem innihalda nikkel, tölur á gallabuxum geta framkallað útbrot og jafnvel húðkrem. Þess konar nikkelofnæmi er nokkuð algengt en ég er ekki bara með snertiofnæmi heldur það sem kallast kerfisbundið nikkelofnæmi (SNAS). Það er aðeins flóknara að eiga við kerfisbundið nikkelofnæmi því þeir sem þjást af því eru með snertiofnæmi en eru einnig með ofnæmi fyrir nikkel í mat. Við þurfum því að lágmarka alla snertingu okkar við nikkel bæði í mat og hlutum. Þannig tengist mitt nikkelofnæmi ís.

En er nikkel í alvöru í mat??? 

Já heldur betur. Nikkel finnst alls konar mat en mest í grænmeti og ávöxtum. Yfirleitt er töluvert meira nikkel í fæðutegundum úr jurtaríkinu en dýraríkinu. Í hnetum er til að mynda heilmikið nikkel en tiltölulega lítið er af því í mjólkurmat, fiski og eggjum. Aðrar fæðutegundir sem innihalda nikkel í miklum mæli eru súkkulaði, þurrkaðar baunir og ýmiss konar kornmeti. 

Það sem skiptir þó miklu máli er að nikkelmagn fæðutegundar er háð jarðveginum sem hún óx í eða þeim jarðvegi sem til dæmis grasið óx í sem kýrin át á þeim tíma sem hún framleiddi mjólkina. 

Þetta flækir málin töluvert þar sem ómögulegt er að hafa yfirsýn yfir samsetningu þess jarðvegs sem hver fæðutegund vex í. Við vitum þó að ákveðin svæði eru með jarðveg ríkari af nikkeli en önnur svæði svo að mögulega er hægt að flokka landsvæði eftir því. Það er bara rosalega flókið.  Þess vegna er einfaldast fyrir okkur ofnæmis pésana að velja fæðutegundir sem eru almennt lægri í nikkeli. 

En ef maður er ekki með nikkelofnæmi, ætti ég þá samt að forðast nikkel???

Nei það held ég ekki. Ég held þetta sé svipað og önnur  ofnæmi, ef þú ert til dæmis ekki með ofnæmi fyrir eggjum er óþarfi að forðast egg. Nikkel finnst í svo mikið af matvælum að ég held það sé ómögulegt að forðast nikkel nema þú þurfir að setja þig vel inn í þessi nikkelfræði. 

Ertu þá bara með ís sem er lágur í nikkel?

Nei reyndar ekki, við leggjum þó áherslu á ís með lágu nikkel innihaldi. Málið er að ég elska ís og það er ástæðan fyrir því að ég byrjaði að búa hann til. Ég þoli illa öll bindiefni, hvort sem þau eru náttúruleg eða ekki, hvort sem þau heita locust bean, guar gum eða xanthan gum. Ég þurfti því að finna leið til þess að búa til ís án þess að nota aukaefni eða bindiefni. Það er hægara sagt en gert og varð til þess að ég henti mér út í djúpu laugina og kynnti mér allt sem ég gat um vísindin á bak við ísgerð. Ísgerð er í rauninni blanda af list og efnafræði.

Ég geng eins langt og ég get í því að forðast nikkel í öllum framleiðsluferlinu þegar kemur að krúttunum okkar sem eru með lágt nikkel innihald.  Ég nota til dæmis keramikhnífa og keramikpotta í öllum undirbúningi. Við forðumst að nota ryðfrítt stál eða aðra málma sem innihalda nikkel þar sem það er möguleiki á að nikkel smitist yfir í ísinn. En því miður get ég ekki komist alfarið hjá því að nikkel komist í tæri við ísinn þar sem td. ísgerðarvélin okkar hún Roxy Rebel er gerð úr ryðfríu stáli.

Við erum svo með einhver krútt sem eru með hátt nikkelinnihald eins og Þríeykið sem er með þristabragði.